Þorvaldur Ingvarsson

Þorvaldur útskrifaðist úr læknadeild Háskóla Íslands árið 1987 og með doktorsgráðu í bæklunarskurðlækningum frá Háskólanum í Lundi árið 2000. Þorvaldur er bæklunarskurðlæknir við Sjúkrahúsið á Akureyri og dósent við læknadeild Háskóla Íslands. Áður starfaði hann sem framkvæmdastjóri þróunarsviðs Össurar. Hann hefur einnig verið forstjóri og lækningaforstjóri Sjúkrahúss Akureyrar. Þorvaldur hefur víðtæka reynslu af störfum innan heilbrigðisgeirans og hefur starfað í mörgum nefndum á vegum hins opinbera.
Ingibjörg Eyþórsdóttir

Ingibjörg er hjúkrunarfræðingur að mennt með meistargráðu í stjórnun heilbrigðisþjónustu. Ingibjörg er framkvæmdastjóri hjúkrunar á hjúkrunarheimilinu Sólvangi en var fyrir það hjá sprotafyrirtækinu Kara connect þar sem unnið er að hönnun hugbúnaðar í fjarskiptatækni sem bætir aðgengi að þjónustu í mennta- velferðar og heilbrigðisgeiranum. Áður starfaði Ingibjörg sem rekstrarstjóri Klíníkurinnar Ármúla þar sem hún kom meðal annars að allri uppbyggingu og þróun. Fyrir þann tíma starfaði hún annars vegar sem deildarstjóri og hins vegar sem sölu- og markaðsstjóri Johnson & Johnson hjá Icepharma. Ingibjörg hefur víðtæka reynslu og þekkingu innan heilbrigðisgeirans bæði hvað varðar einkageirann sem og hið opinbera og hefur komið að þróunar og uppbyggingarverkefnum í þessum geira.
Ari Kristján Sæmundsen

Ari útskrifaðist með B.Sc. gráðu í líffræði frá Háskóla Íslands árið 1974. Var stundakennari við HÍ og Hjúkrunarskóla Íslands og afleysingakennari við Menntaskólann í Reykjavík samhliða því að ljúka við 4. árs rannsóknarverkefni hjá Rannsóknastofu HÍ í veirufræði. Útskrifaðist með M.Sc. gráðu í örverufræði frá Virginia Tech í Bandaríkjunum 1978 og Ph.D. í veirufræði frá Karolinska Institutet í Stokkhólmi 1982. Ari var einn af stofnendum Gróco ehf 1983 og framkvæmdastjóri þess frá 1985. Vann loks sem viðskiptastjóri hjá MEDOR ehf 2012-2018, en er nú sestur í helgan stein.
Ari var um skeið í stjórn Verkfræðingafélags Íslands, Krabbameinsfélags Reykjavíkur og líftæknifyrirtækisins CanAg Diagnostic AB í Gautaborg. Hann var í starfshópi Rannsóknaráðs ríkisins um líftækni 1983 og nefndarformaður nefndar um möguleika íslenskrar líftækni á vegum iðnaðarráðuneytisins 1984.