Sprengjugengið

Sprengjugengið var stofnað árið 2007 af Sigurði Smárasyni. Fyrsta sýningin þeirra var á Menningarnótt sama ár og það er óhætt að segja að það hafi gengið framar vonum. Smám saman urðu verkefnin fleiri en árið 2011 tekur Kata við keflinu af Sigurði og var fljót að fá viðurnefnið „Sprengju Kata“ 😊 Kata starfar sem efnafræðikennari við Háskóla Íslands og hefur brennandi áhuga á öllu sem við kemur faginu. Það má því sannarlega segja að Sprengjugengið hafi fengið fullkominn kandídat til að viðhalda þessum skemmtilega hópi. Síðan Kata tók við hefur Sprengjugengið vaxið mikið en hún kallar fagið „barnið“ sitt og finnst ekkert skemmtilegra en að hitta áhugasama krakka og kynna þá fyrir efnafræði. Henni til aðstoðar eru nemendur úr efnafræði Háskóla Íslands en verkefnin hafa aukist jafnt og þétt og má þá helst nefna Vísindasmiðju Háskólans þar sem Kata tekur á móti krökkum og kynnir þeim efnafræðina. Einnig hefur sprengjugengið sést á skjánum í þáttunum „Ævar Vísindamaður“ við mikla lukku yngri kynslóðarinnar. Sprengjugengið lætur sig heldur ekki vanta þegar Háskólalestin fer á flakk um landið og kynnir nám skólans. Síðast en ekki síst er gaman að segja frá því að Norðurlandamótið í Efnafræði verður haldið sumarið 2020 á Íslandi og fer Kata þar fremst í flokki með skipulag og utanumhald. Við í MEDOR erum ótrúlega stolt að fá að styrkja þetta frábæra verkefni sem sprengjugengið er og tökum hattinn ofan fyrir henni Kötu sem virðist vera með 40 klst í sólahringnum til að geta sinnt sprengjugenginu samhliða því að vera í fullri vinnu með fjölskyldu!

Sprengju Kata